Ungmenna- og Íþróttafélagið Smári

Glímukapparnir frá Varmahlíð, ásamt Karli Lúðvíkssyni. Frá vinstri: Þórir Árni Jóelsson, Guðmundur S…
Glímukapparnir frá Varmahlíð, ásamt Karli Lúðvíkssyni. Frá vinstri: Þórir Árni Jóelsson, Guðmundur Smári Guðmundsson og Skarphéðinn Rúnar Sveinsson, við hlið Karls.

Þrír nemendur Varmahlíðarskóla, með íslensku glímuna sem valgrein á haustönn, gerðu góða ferð á MÍ í glímu 15 ára og yngri sem haldið var í Reykjanesbæ, laugardaginn 24. okt. sl. Guðmundur Smári Guðmundsson varð Íslandsmeistari í flokki 13 ára pilta, Þórir Árni Jóelsson varð annar í flokki 14 ára pilta og Skarphéðinn Rúnar Sveinsson varð þriðji í sama flokki.  

Að móti loknu var boðið upp á æfingabúðir þar sem bachold var kynnt og æft ásamt bæði júdó- og glímuæfingum. Bachold er eiginlega breska útgáfan af fangbrögðum líkt og glíman er íslenska útgáfan eða þróunin á norrænu fangbrögðunum.  -  Að sjálfsögðu tóku mínir menn þátt í þessu og höfðu bæði gagn og gaman af. Okkar þátttaka í þessu móti var eiginlega liður í glímukennslu valhópsins í Varmahlíðarskóla með það að markmiði að kynnast keppnisformi glímunnar og öðlast dýrmæta reynslu sem í því felst að taka þátt í keppni og æfingabúðum. 

Ég var mjög ánægður með frammistöðu piltanna, sérstaklega fyrir prúðmannlega framkomu, góða glímutækni og drengilega keppni.  Ég er alltaf ánægður þegar menn geta tekið sigri án þess að ofmetnast og ósigri án þess að brotna niður. Mér fannst einnig gaman að fylgjast með og upplifa þann mikla áhuga, kraft og dugnað sem þeir Ólafur Oddur Sigurðsson form. Glímusambands Íslands og Guðmundur Stefán Gunnarsson stjórnarmaður GLÍ og þjálfari glímumanna í UMFN sýndu við framkvæmd þessa móts.

Heimild: Feykir.is