Fjölmenning og inngilding í íþrótta- og æskulýðsstarfi

Fjölmenning og inngilding í íþrótta- og æskulýðsstarfi

Í fjölmenningarlegu samfélagi er litið á fjölbreytileika sem sjálfsagðan hlut og lögð er áhersla á inngildingu (e. inclusion). Inngilding felur í sér að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum. Inngilding snýr að því að virkja allt fólk til þátttöku og gefa fjölbreyttum hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku.

Fjölmenningarsamfélög

Samfélög nútímans eru í stöðugri þróun og þau eru sífellt að verða fjölbreyttari, meðal annars með tilliti til uppruna, þjóðernis, menningar, trúar- og lífsskoðana. Vegna aukinnar alþjóðavæðingar hefur hreyfanleiki fólks aukist til muna og því eru flest samfélög orðin mun fjölbreyttari en áður var og eru því skilgreind sem fjölmenningarsamfélög.

Fjölmenningarleg samfélög kalla á ýmsar breyttar áherslur á flestum sviðum samfélagsins. Það er mikilvægt að fólk sem starfar með börnum og ungmennum fái ígrundaða menntun um stöðu ýmissa jaðar- og minnihlutahópa til að þeir átti sig á og geti borið kennsl á birtingarmyndir mismununar og jaðarsetningar í samfélaginu, í nærumhverfi þeirra og jafnvel hjá þeim sjálfum. Það auðveldar þeim að bregðast við þegar upp koma atvik eða áföll sem fela í sér fordóma, mismunun og jaðarsetningu, koma slíkum málum í farveg og stuðla að því slíkt endurtaki sig ekki.

Með fjölmenningarlegu samfélagi er átt við samfélag fólks af ólíku þjóðerni og af ólíkum menningar- og trúarlegum uppruna, samfélag fólks sem býr yfir ólíkri reynslu, getu og hæfni og býr saman í einu samfélagi, ber virðingu fyrir hvort öðru og hefur samskipti sín á milli.

Inngilding í íþrótta- og æskulýðsstarfi

Öll börn og ungmenni eiga rétt á því að taka þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi án þess að vera mismunað vegna uppruna, þjóðernis, húðlitar, menningar, trúar- og lífsskoðana eða annarra mismununarþátta. Öll börn og ungmenni eiga sama rétt á því að taka virkan þátt og upplifa öryggi, virðingu og hlutdeild. Það er á ábyrgð starfsfólks og sjálfboðaliða að stuðla að inngildingu í íþrótta- og æskulýðsfélögum og starfsemi á þeirra vegum með því að virkja allt fólk til þátttöku og gefa fjölbreyttum hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku.

Mikilvægt er að öll íþrótta- og æskulýðsfélög séu með stefnu um inngildingu og fjölmenningu sem felur í sér skuldbindingu um inngildandi félag og starfsemi, skilgreind markmið og aðgerðir til að ná þeim.
‍Stefnunni til stuðnings er mikilvægt að félögin séu með verkferla sem fela í sér viðbrögð við því þegar upp koma atvik eða áföll í starfinu sem fela í sér kynþáttaníð, útlendingaandúð eða annars konar fordóma og mismunun á grundvelli uppruna, þjóðernis, húðlitar, menningar, trúar- og lífsskoðana eða annarra mismununarþátta. Það er mikilvægt svo hægt sé að bregðast við slíkum málum með réttum hætti, að málið fái viðeigandi málsmeðferð og úrlausn og að gripið sé til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að slík atvik eða áföll endurtaki sig í starfinu. Slíkt eykur traust og tiltrú á félaginu.

Æskulýðsvettvangurinn hefur unnið að þróun verkfæra sem íþrótta- og æskulýðsfélög og aðrir sem starfa með börnum og ungmennum eru hvött til þess að nýta sér til þess að stuðla að inngildandi félagi og starfsemi.

Að byggja upp inngildandi starfsemi með börnum og ungmennum gerist ekki á einni nóttu. Um er að ræða ferli sem íþrótta- og æskulýðsfélög þurfa að skuldbinda sig til þess að taka virkan þátt í. Það þarf að vinna markvisst að því að búa til inngildandi starfsemi sem öll börn og ungmenni geta tekið þátt í með inngildandi aðferðum og verkfærum.

Síða er í vinnslu 1.5.2024.