Framtíðarstefnumörkun íþróttamála í Skagafirði

Tillaga að framtíðarstefnumörkun íþróttamála í Skagafirði lögð fyrir 102. ársþing UMSS þann 12. mars 2022 og samþykkt af kjörfulltrúum aðildarfélaga UMSS.

Tillagan hljóðaði svona:

„102. ársþing UMSS haldið í Hús frítímans þann 12. mars 2022, hvetur Sveitarfélag Skagafjarðar að setja á stað vinnu í samvinnu við UMSS varðandi framtíðarstefnumörkun í íþróttamálum í Sveitarfélaginu Skagafirði og í framhaldi á því að hraða uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu.“

Greinagerð:

Í tillögunni er lagt til að mörkuð verði stefna fyrir íþróttamál í Sveitarfélagi Skagafjarðar til ársins 2030. Engin núverandi stefna er í gangi. Meðal þess sem verði fjallað um verði að jafna möguleika áhugasams ungs fólks til íþróttaþátttöku, óháð efnahag eða öðrum þáttum, leiðir til að stuðla að aukinni og reglulegri hreyfingu íbúa sveitarfélagsins og hlutverk íþróttafélaganna í að stuðla að almennri hreyfingu íbúa, ekki síst þeirra sem komnir eru á efri ár. Lagt verði mat á rekstrarumhverfi og rekstur íþróttahreyfingarinnar, aðstöðumál og sett fram stefna og framtíðarsýn hvað þessa þætti varðar. Í upphafi vinnunnar verði framkvæmt stöðumat sem meðal annars feli í sér eftirfarandi atriði:

  1. Yfirlit um þátttöku í æfingum og starfsemi íþróttafélaga, brotið niður eftir aðildarfélögum UMSS, aðsókn í sund og aðra heilsurækt og framboð af íþróttum og hreyfingu í Sveitarfélaginu. Jafnframt verði veitt heildar yfirlit um stuðning við börn og ungmenni í gegnum frístundarstyrk og stuðning velferðarsviðs og eldri borgara og öryrkja í gegnum ókeypis aðgang að sundlaugum og niðurgreiðslu á annarri hreyfingu.
  2. Rekstrarúttekt á íþróttafélögum og fjárhagslegu umhverfi þeirra félaga sem njóta styrkja frá Sveitarfélaginu.
  3. Yfirlit um fjárfestingu í núverandi íþróttamannvirkjum, völlum og aðstöðu, þ.m.t. fasteignir, lönd og lóðir, sundlaugar, golfvelli, aðstöðu hestaíþróttarinnar, samgöngu og útivistarstíga, íþróttahús við skóla og battavelli á skólalóðum.

Unnar verði tillögur að framtíðarsýn og aðgerðaáætlun út frá lykilmarkmiðum um að jafna aðstöðu til þátttöku, mikilvægi hreyfingar fyrir alla aldurshópa og um öflugt íþróttastarf um allt Sveitarfélagið. Í skilagrein verði meðal annars fjallað um áætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja, stefnumótun Sveitarfélagsins og félaganna, rekstrarmál íþróttafélaga, þjónustu og starfsemi félaganna og rekstur íþróttamannvirkja Sveitarfélagsins. Einnig verði mörkuð stefna varðandi stuðning Sveitarfélagsins í gegnum frístundarstyrki, stuðning við almenningsíþróttir, afreksíþróttir, lið og afnot þeirra af íþróttamannvirkjum Sveitarfélagsins. Áfangaskýrslu skal skilað um nokkur lykilatriði, svo sem mannvirkjamál og rekstrarmál fyrir 1. maí 2023.

Á 103. ársþing UMSS sem haldið var í Ljósheimum, Skagafirði þann 21. mars 2023, var tillaga samþykkt af kjörfulltrúum aðildarfélag UMSS, þar sem þingið hvetur sveitarfélagið Skagafjörð til þess að hraða vinnu við framtíðarstefnumörkun  íþróttamála í Skagafirði og um leið hraða uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu. Mikilvægt er að í þeirri vinnu verði leitað til allra hagsmunaaðila, núverandi staða metin og framtíðaráform þarfagreind þannig ráðast megi í framlagðar tillögur innan ákveðins tímaramma. Ársþing UMSS fagnar því að til standi að ráðast í þessa vinnu og bindur vonir við að hún styrki enn frekar það öfluga íþróttastarf sem fram fer innan héraðs.

Á 104. ársþing UMSS sem haldið var í Félagsheimilinu Tjarnabær, Skagafirði þann 27. apríl 2024, var tillaga samþykkt af kjörfulltrúum aðildarfélag UMSS, þar sem þingið hvetur sveitarfélagið Skagafjörð til þess að hraða vinnu við framtíðar stefnumörkun íþróttamála í Skagafirði og um leið hraða uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu. Mikilvægt er að í þeirri vinnu verði leitað til allra hagsmunaaðila, núverandi staða metin og framtíðaráform þarfagreind þannig ráðast megi í framlagðar tillögur innan ákveðins tímaramma. Ársþing UMSS fagnar því að til standi að ráðast í þessa vinnu og bindur vonir við að hún styrki enn frekar það öfluga íþróttastarf sem fram fer innan héraðs.