Unglingalandsmóti UMFÍ frestað!
Unglingalandsmóti UMFÍ hefur verið frestað. Ákvörðun var tekin á föstudaginn í ljósi aðstæðna í samfélaginu.
Frétt tekin af síðu UMFÍ:
„Þetta er afar þungbær og erfið ákvörðun. Við erum með tárin í augunum því margir hafa lagt hart að sér að gera það að veruleika og mörg börn og ungmenni búin að áforma að njóta helgarinnar með fjölskyldum sínum og vinum. En í ljósi aðstæðna verðum við að sýna ábyrgð og samstöðu á þessum óvissutímum og taka þátt í baráttunni. Því miður er ómögulegt að halda mótið með ábyrgum hætti innan þeirra takmarkana sem settar hafa verið og því verðum við að fresta mótinu,“ segir Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts UMFÍ.
Undirbúningur fyrir Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi hefur staðið yfir síðustu ár og er þetta annað árið í röð sem mótinu er frestað. Mótið átti upphaflega að fara fram á Selfossi um verslunarmannahelgina 2020 í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðin og Sveitarfélagið Árborg.
Mikil vinna orðin að engu – annað árið í röð
Þórir segir ómögulegt að líta fram hjá framlagi sjálfboðaliða HSK við undirbúning Unglingalandsmótsins. Þeir hafi lagt mikið á sig nú tvö ár í röð við undirbúning móta sem ekki fara fram. Ætla megi að um 3.000 klukkustundir sé þegar búið að vinna auk þess sem hátt í 200 sjálfboðaliðar hefðu unnið á hverjum degi á mótinu sjálfu. Mikil verðmæti hafi því orðið að engu í núverandi COVID-bylgju.
Sjá: Samkomutakmarkanir innleiddar að nýju
„Framlag sjálfboðaliða hefur síðastliðin tvö ár verið gríðarlega mikið. Nú höfum við fengið stuðning frá sama fólki tvö ár í röð og þurfum að leita til sama hóps þriðja árið,“ segir hann. „Því til viðbótar er auðvitað talsverður útlagður kostnaður við kynningu mótsins og annan undirbúning sem ljóst er að verður að engu.“
Vonbrigði barnanna
Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, segir afar dapurlegt að hafa þurft að fresta Unglingalandsmótinu. Vonbrigðin séu mikil hjá mörgum.
„Fjöldi fólks hefur lagt mikið á sig við undirbúning mótsins og allir hlakkað til.
Unglingalandsmót UMFÍ hafa frá upphafi verið góður áfangastaður fyrir fjölskyldufólk um verslunarmannahelgina. Mikill fjöldi barna hefur mætt á mótin og notið þess að taka þátt í keppni í íþróttum og skemmt sér á heilbrigðum forsendum með fjölskyldum sínum og vinum. En nú verða þær væntingar að engu,‟ segir Ómar Bragi.
Þátttökugjald verður endurgreitt
Skráning hefur verið í fullum gangi á Unglingalandsmót UMFÍ í allan júlí og stefndi í að mótið yrði eitt það fjölmennasta frá upphafi. UMFÍ mun endurgreiða öllum þátttakendum sem þegar hafa skráð sig. Enginn þarf að óska sérstaklega eftir endurgreiðslu. Ef einhverjar spurningar vakna er hentugast að senda skeyti á umfi@umfi.is.