Nú er heldur betur farið að styttast í Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina í samstarfi við Ungmennasambandið Úlfljót (USÚ) og Sveitarfélagið Hornafjörð.
Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Dagskráin er eins og alltaf sneisafull af skemmtilegheitum, íþróttum á daginn, afþreyingu fyrir alla og tónleikum í risastóru samkomutjaldi á kvöldin.
Boðið er upp á keppni í 21 grein auk þess sem hægt verður að prófa helling af fleiri greinum. Keppnisgreinar eru: biathlon, bogfimi, fimleikalíf, fimleikar (stökkfimi), frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, pílukast, skák, skotfimi, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund og upplestur.
UMSS niðurgreiðir mótsgjald fyrir skagfirsk ungmenni og greiða iðkendur í Skagafirði aðeins kr. 3450,- og geta þá keppt í eins mörgum greinum og þeir vilja (munið að velja Ungmennasamband Skagaf. UMSS). Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en geta þó tekið þátt í þeirri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp. Skráning og allar nánari upplýsingar um keppnisgreinar er að finna á www.ulm.is. Skráningafrestur rennur út á miðnætti þann 30. júlí.
Eins og ævinlega er fjölbreytt dagskrá og afþreying fyrir alla mótsgesti yfir allt mótið. Börn yngri en 10 ára fá líka fjölmörg verkefni eins og foreldrarnir. Það verður líf og fjör á Höfn frá morgni til kvölds alla mótsdagana. Hér eru nokkur sýnishorn af því sem boðið verður uppá á Höfn: flugeldasýning, fótboltabilljard, fótboltamót barna 10 ára og yngri, fótboltapanna, fótbolti 3:3, frjálsíþróttaleikar barna, gönguferðir, kvöldvökur, tónleikar með besta tónlistarfólki landsins, ringó, sandkastalagerð, sundleikar barna, hestar teymdir undir börnum, 50m þrautabraut og margt fleira. Öll afþreying er opin og án endurgjalds.
Unglingalandsmót UMFÍ hafa farið fram reglulega frá árinu 1992 og árlega frá árinu 2002. Mótið hefur ætið farið fram um verslunarmannahelgina. Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma börn og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.
UMSS er með lokaðann facebook hóp fyrir Unglingalandsmótið UMSS á ULM - keppendur móts og forráðamenn vinsamlegast skráið ykkur inn í hópinn.
Sjáumst hress á Höfn á Hornafirði!
Áfram UMSS!