Unglingalandsmót UMFÍ

Körfuboltakrakkar UMSS gerðu góða hluti á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum um helgina. Lið undir merkjum UMSS unnu eitt gull og eitt silfur og Hvolparnir, sem eru strákar úr Tindastóli, unnu til bronsverðlauna. Þá voru einstaklingar frá okkur í bræðingsliðum og stóðu sig vel.

Það var sameiginlegt lið HSH (Snæfells) og UMSS sem sigraði í flokki 15-16 ára stúlkna með yfirburðum. Unnu stelpurnar alla sína andstæðinga og Valsstúlkur að lokum í úrslitaleik. Stelpurnar sem léku í þessu liði frá UMSS voru þær Helga Þórsdóttir, Ólína Sif Einarsdóttir, Guðfinna Olga Sveinsdóttir, Árdís Eva Skaftadóttir, Guðlaug Rún Sigurjónsdóttir og Linda Þórdís Róbertsdóttir. Það var sérstakt fyrir Karl Jónsson þjálfara að stjórna þessu liði, því í því voru báðar dætur hans, Rebekka Rán úr Snæfelli og Árdís Eva úr UMSS.

Stelpurnar í 13-14 ára flokknum kepptu til úrslita við lið Keflavíkur í sínum flokki en biðu lægri hlut eftir að hafa sigrað sama lið deginum áður í riðlakeppninni. Í liði UMSS voru þær Árdís Eva Skaftadóttir, Guðlaug Rún Sigurjónsdóttir, Sigríður Lára og Margrét Lilja Stefánsdætur, Linda Þórdís Róbertsdóttir, Bríet Lilja Sigurðardóttir, Jóna María Eiríksdóttir og Anna Valgerður Svavarsdóttir.

Strákarnir í flokki 15-16 ára lentu í 5. sæti í sínum aldursflokki, eftir að hafa sigrað í úrslitaleik um það sæti. Í liðinu voru þeir Árni Freyr Sigurðsson, Agnar Ingi Ingimundarson, Haukur Hlíðar Ásbjarnarson, Bjarni Þórir Tómasson og Sigurður Páll Stefánsson.

Hvolparnir hét lið með strákum úr Tindastóli, en þeir lentu í 3. sæti í 15-16 ára strákaflokknum. Leikmenn þar voru þeir Friðrik Jóhannsson, Viðar Ágústsson, Pétur Rúnar Birgisson, Kristinn Gísli Jónsson og Ólafur Starri Pálsson.

Þá keppti Ásthildur Ómarsdóttir með stúlkum úr USVH í flokki 11-12 ára en þær stöllur urðu í 2. sæti. Hún gerði ekki aðeins það, heldur spilaði upp fyrir sig líka og meira að segja langt upp fyrir sig í aldursflokki með USVH/HSS og sýndi frábæran dugnað.

Þá kepptu þeir Pálmi Þórsson og Elvar Ingi Hjartarson í samsuðuliði sem hét Miami í flokki 13-14 ára stráka og lentu þeir í öðru sæti eftir harða keppni við lið Fjölnis.

Krakkarnir okkar stóðu sig afar vel og voru félagi sínu og sambandi til sóma.