Unglingalandsmót UMFÍ 2010

 

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Ungmennasamband Borgarfjarðar er mótshaldari þessa Unglingalandsmóts en UMSB var stofnað árið 1912 og innan vébanda þess eru 12 aðildarfélög. Unglingalandsmótin eru vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð og frábær kostur fyrir alla þá sem velja heilbrigt og vímuefnalaust umhverfi samhliða því að taka þátt í fjölbreyttri íþróttakeppni

Allir á aldrinum 11 – 18 ára geta tekið þátt í íþróttakeppni á Unglingalandsmótinu. Keppendur greiða eitt mótsgjald, kr. 6.000.- og fá með því þátttökurétt í öllum keppnisgreinum. Búseta og aðild að íþróttafélagi skiptir engu máli, allir hafa jafnan rétt til keppni á mótinu.
Glæsileg íþróttamannvirki eru til staðar í Borgarnesi. Íþróttaleikvangurinn er vel staðsettur og við hlið hans eru knattspyrnuvellir, sundlaug og íþróttahús. Önnur íþróttamannvirki eru í bænum eða næsta nágrenni. Tjaldstæði keppenda verður rétt utan við bæinn en boðið verður uppá góðar samgöngur að keppnissvæðunum.

Borgarnes hefur í áratugi verið miðstöð verslunar og þjónustu í Borgarfirði. Í dag eru um 1830 íbúar í Borgarnesi, en alls eru íbúar í sveitarfélaginu Borgarbyggð 3550. Borgarbyggð er sannkallað skólahérað, en auk leik- og grunnskóla starfar öflugur tónlistarskóli í héraðinu, nýr og framsækinn menntaskóli, Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

Rétt ofan við reiðhöllina er útivistarsvæðið Einkunnir , þar sem finna má gönguleiðir við allra hæfi, útsýnisstaði og spennandi áningastaði. Í Borgarnesi er öll þjónusta til staðar, úrval verslana, veitingastaðir og kondidorí, góð hótel og gististaðir. Í Landnámssetri og Safnahúsi Borgarfjarðar eru skemmtilegar sýningar og vorið 2010 opnar nýtt brúðulistasetur í gamla miðbænum i Borgarnesi.

Í nágrenni Borgarness eru einstakar náttúruperlur og sögustaðir sem gaman er að heimsækja.
Það finna því allir eitthvað við sitt hæfi í Borgarnesi og Borgarbyggð.