Unglingalandsmót UMFÍ

Næsta Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina 2011. Ungmenna og Íþróttasamband Austurlands er mótshaldari og stefnt er að því að halda glæsilegt mót við góðar aðstæður. Unglingalandsmótin eru vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð og frábær kostur fyrir alla þá sem velja heilbrigt og vímuefnalaust umhverfi samhliða því að taka þátt í fjölbreyttri íþróttakeppni. 

Allir á aldrinum 11 – 18 ára geta tekið þátt í íþróttakeppni á Unglingalandsmótinu. Keppendur greiða eitt mótsgjald, kr. 6.000.- og fá með því þátttökurétt í öllum keppnisgreinum.

Glæsileg íþróttamannvirki eru til staðar á Egilsstöðum en Landsmót UMFÍ var haldið þar árið 2001 og töluverð uppbygging varð í kringum það mót.   Íþróttaleikvangurinn er vel staðsettur í hjarta bæjarins.  Sundlaug og íþróttahús er þar rétt við hliðina og  öll önnur íþróttamannvirki í næsta nágrenni. Tjaldstæði keppenda verður afskaplega vel staðsett og í göngufæri við keppnissvæðin.

 Samhliða íþróttakeppninni verður fjölbreytt skemmtidagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna á daginn. Þar má nefna að skemmtidagskrá verður í Tjarnargarðinum alla daga.  Sprelligosa- og Fjörkálfaklúbbar, leiktæki fyrir börn og unglinga og  gönguferðir með leiðsögn alla daga fyrir þá sem eldri eru. Þá verða fjölbreyttar kvöldvökur og síðan flugeldasýning á sunnudagskvöldið eins og venja er.