Byrjunarlið Íslands gegn Eistlandi, Jón Gísli lengst til vinstri í fremri röð. Mynd: ksi.is.
Jón Gísli Eyland leikmaður Tindastóls er þessa dagana erlendis með U16 ára landsliði Íslands en í gær lék liðið gegn Eistlandi. Jón Gísli var í byrjunarliðin, lék á miðjunni og lagði upp seinna mark Íslands í 2-1 sigri. Næsti leikur er gegn Litháen á morgun en leikið er í Gargzdai í Litháen.
Á laugardag kemur landsliðið heim, sama dag og meistaraflokkar Tindastóls halda til Spánar í æfingaferð. Á Facebooksíðu stuðningsmanna knattspyrnudeildar Tindastóls segir að Jón Gísli verði þó ekki með í för þar, þar sem hann sé á leið til Padova á Ítalíu til reynslu í vikutíma 14.-21. apríl.
Padova er sögufrægt félag á Ítalíu og er sem stendur í C-deildinni þar en er þar í verulega góðri stöðu til að komast upp um deild og spilar líklega í B-deildinni á næsta ári. Fyrir ekki svo mörgum árum lék liðið oftar en ekki í A-deildinni, segir á stuðningsmannasíðunni.