Ungir og efnilegir íþróttamenn UMSS

Feðgarir Gísli og Jón Gísli kátir að leik loknum í gær. MYND: ÓBS
Feðgarir Gísli og Jón Gísli kátir að leik loknum í gær. MYND: ÓBS

Lið Tindastóls tók á móti Knattspyrnufélagi Rangæinga (KFR) á Hofsósi í gær. Tindastólsmenn höfðu unnið síðustu tvo leiki sína í 3. deildinni og bættu þeim þriðja við með góðum leik en lokatölur urðu 4-0.

Ragnar Þór Gunnarsson gerði fyrsta mark leiksins á 26. mínútu og hann bætti öðru marki við á sjálfri markamínútunni, þeirri 43. Ragnar fullkomnaði síðan þrennuna á 60. mínútu. Lokaorðið átti síðan Benjamín Gunnlaugarson með marki á 75. mínútu.

Víðir í Garði eru efstir í 3. deildinni að loknum fjórum umferðum með fullt hús stiga. Tindastólsmenn skutu sér upp í annað sætið með sigrinum í gær, eru með níu stig líkt og lið Einherja frá Vopnafirði. Stólarnir sækja Vopnfirðinga heim næstkomandi laugardag en síðan kemur EM-hvíld á Íslandsmótinu.

Feðgar í liði Tindastóls

Feðgarnir Gísli Eyland Sveinsson og Jón Gísli Eyland Gíslason tóku báðir þátt í leiknum í gær. Gísli, sem er 42 ára og hefur spilað yfir 200 deildarleiki með liði Tindastóls, stóð í markinu. Hann hefur hvað eftir annað bjargað Stólunum fyrir horn síðustu árin og smellt á sig hönskunum eftir að hann lagði þá á hilluna. Jón Gísli, sem er 14 ára og á eldra ári í 4. flokki, er yngsti leikmaðurinn í sögu Tindastóls til að spila með meistaraflokki félagsins, en hann bætti met landsliðsmannsins Rúnars Más Sigurjónssonar sem var áður yngsti leikmaður félagsins. Jón Gísli kom inná sem varamaður þegar um stundarfjórðungur var eftir.

Ástæða þess að Gísli skellti sér í markið um helgina er sú að markvörður liðsins, Brenton Muhammad, var í verkefnum með landsliði Antigua og Barbuda um helgina. Hann ætti að verða klár í slaginn í næsta leik.

Heimild: Feykir.is