Arnar Geir og Ólína Sif. Mynd: Feykir.is
Ólína Sif Einarsdóttir og Arnar Geir Hjartarson eru ungir og efnilegir Skagfirðingar en þau eru að standa sig vel hjá sitt hvoru íþróttafélaginu. Ólína spilar fótbolta með meistaraflokksliði Tindastóls og Arnar Geir leikur golf með GSS.
Íþróttahæfileikarnir eru ekki það eina sem þau eiga sameiginlegt en þau hafa bæði fengið styrk frá amerískum háskólum til að stunda íþróttina sem þau elska og það í sama fylkingu, Missouri og ætti því að vera hægur leikur fyrir æskuvinina að heimsækja hvort annað. Blaðamaður Feykis heyrði í þeim hljóðið á dögunum en þau voru bæði á fullu við undirbúning fyrir ævintýrið sem bíður þeirra í Bandaríkjunum.
Blaðamaður: Nú eruð þið bæði efnilegir íþróttamenn. Getið þið sagt mér hvernig þetta byrjaði allt hjá ykkur?
Arnar Geir: Ég var bara pínulítill þegar ég fór að fara með pabba á golfvöllinn og svo fór ég fljótlega að slá eitt og eitt högg. Síðan þegar ég var 8 ára gamall fór ég í golfskólann hjá GSS sem er starfræktur öll sumur. Síðan hef ég nánast búið upp á golfvelli öll sumur, vinn þar 8-16 og spila og æfi golf svo yfirleitt fram á kvöld.
Ólína Sif: Fyrstu fótboltaæfingarnar sem ég man eftir voru á ganginum heima með bróður mínum og pabba. Ég byrjaði síðan að æfa fótbolta þegar ég var 6 ára. Ég var eina stelpan á mínum aldri til að byrja með, svo að ég æfði með strákunum fyrstu árin.
Blaðamaður: Hvernig hefur gengið undanfarið í sportinu?
Ólína Sif: Kvennaboltinn hérna er klárlega á uppleið og síðustu tímabil hjá okkur í meistaraflokk kvenna hafa bara gengið nokkuð vel, þó svo að æfingaaðstaðan geri okkur erfitt fyrir, sérstaklega á veturnar.
Arnar Geir: Það hefur gengið mjög vel í sumar og miklar framfarir hjá mér. Var mjög duglegur í vetur að æfa og það hefur svo sannarlega skilað sér.