UMSS rétt missti af Bikarnum í frjálsum

Bikarkeppni FRÍ lauk í dag og hefur keppni ekki verið eins jöfn og tvísýn í mörg ár og réðust úrslit ekki fyrr en í síðustu grein. FH sigraði í kvennaflokki en UMSS í karlaflokki. Kvennalið UMSS endaði 3. sæti. Hinsvegar náðu FH-ingar í fleiri stig samanlagt og eru því bikarmeistarar. Munaði þar aðeins hálfu stigi svo munurinn gat ekki verið minni. Miklu munaði fyrir lið UMSS að Sunna Gestsdóttir mætti til leiks seinni daginn en ekki var útlit fyrir að hún myndi keppa á mótinu. Sunna sigraði tvær greinar í dag, 200 m hlaup á 23,90 sek (+1,0) sem er nýtt héraðsmet og langstökk með 5,66 metra. Ólafur Guðmundsson vann tvær greinar, langstökk 6,74 metra og 110 m grind á 15,41 sek. Sveinn Margeirsson vann tvær greinar, 3000 m hindrun á 9:51,39 mín og 5000 m hlaup á 15:34,96 mín. Sigurbjörn Árni Arngrímsson vann tvær greinar 800 m hlaup á 1:56,76 mín og 1500 m hlaup á 3:59,95 mín. Arnar Már Vilhjálmsson vann 100 m hlaup og Ragnar Frosti Frostason vann 400 m hlaup á 50,35 sek. Þá unnust 3 boðhlaup, 4x100 m boðhlaup karla, 1000 m boðhlaup karla og 1000 m boðhlaup kvenna. Sannarlega glæsilegur árangur og 13 sigrar.
Lokastaðan í stigakeppni var eftirfarandi     
FH 174,0
UMSS 173,5
ÍR 142,5
Breiðablik 125,0
UMSB/HSH/UDN 79,5
HSK 70,5