Opnað hefur verið fyrir skráningu á 4.Landsmót UMFÍ 50+ sem verður haldið á Húsavík dagana 20.-22. júní í sumar. Skráningin fer fram á heimasíðu www.umfi.is . Þetta verður fyrsta Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið hefur verið á norðausturhorninu. Fyrri mót voru haldin á Hvammstanga, Mosfellsbæ og Vík í Mýrdal. Þó nokkuð er síðan að Landsmót hefur verið haldið á Húsavík, en það var árið 1987 og tókst með eindæmum vel og var það ekki síst veðurguðunum að þakka.
Unglingalandsmót var haldið að Laugum í Reykjadal sumarið 2006 og var þá ráðist í miklar framkvæmdir á vegum Þingeyjarsveitar og unnu sjálfboðaliðar gríðarlega mikið verk við að koma upp nýjum frjálsíþróttavelli. Fyrir Landsmót UMFÍ 50+ á Húsavík verður flikkað uppá þá aðstöðu sem er til staðar og vonandi verður það íþróttamannlífi til góða að Landsmóti UMFÍ 50+ loknu.
Landsmót UMFÍ 50+ er ekki einungis íþróttamót heldur einnig heilsuhátíð og verður boðið upp á fyrirlestra um heilbrigðan lífsstíl og ýmsar heilsufarsmælingar. Fjölmargar keppnisgreinar verða í boði á Landsmóti UMFÍ 50+ á Húsavík, en það eru: Fjallahlaup, boccia, bridds, bogfimi, blak, frjálsar, hestaíþróttir, línudans, golf, pútt, ringó, skák, dráttavélaakstur, jurtagreining, pönnukökubakstur, skotfimi, sund, sýningar, stígvélakast og þríþraut. Markmið mótsins er að skapa fólki 50 ára og eldri vettvang til að koma saman og keppa í hinum ýmsu íþróttagreinum og kynna um leið þá möguleika sem eru í boði til þess.