UMF Tindastóll - Knattspyrnudeild

18 stúlkur úr 3. flokki kvenna hjá Tindastól og fararstjórar þeirra leggja leið sína suður seinnipartinn í dag, föstudaginn 12. júlí, en í fyrramálið munu þær lenda í Svíþjóð til að taka þátt í Gothia Cup sem haldið verður í Gautaborg.

Dagskrá mótsins hefst ekki fyrr en seinnipartinn á sunnudaginn svo laugardagurinn mun fara í það að skoða bæinn, vellina og aðstæður. Á sunnudaginn er stefnan sett á tívolíferð áður en alvara mótsins hefst formlega.

Fyrsti leikur stelpnanna verður svo á mánudaginn en þá mæta þær PK-35 frá Finnlandi. Um kvöldið er opnunarhátið mótsins sem er hápunktur vikunnar og verður hún glæsileg enda mikil vinna sem fer í að skipuleggja atburðinn. Á heimasíðu Gothia Cup kemur fram að athöfnin tekur rúma tvo tíma og hápunkturinn er að sjá öll löndin og þeirra menningarhópa koma saman. Auk keppenda, þjálfara, fararstjóra og heimamanna eru í kringum 500 dansarar, 10 tónlistarmenn og 15 “sóló” listamenn. Yfir 50.000 miðar eru seldir á opnunarhátíðina.

Á þriðjudaginn eiga stelpurnar svo leik á móti Ranrike ALS frá Svíþjóð og eftir það fara þær á landsleik á Evrópumóti kvenna þar sem Danmörk og Finnland mætast. Stelpurnar komast hins vegar ekki á leik með íslenska kvennalandsliðinu.

Á miðvikudaginn er síðasti leikurinn í riðlinum hjá stelpunum en hann er á móti Arna-Bjørnar frá Noregi. Tvö efstu liðin í riðlinum munu svo halda áfram í A- úrslit og tvö neðri liðin í B- úrslit. Feykir hafði samband við Guðnýju Axelsdóttur, einum af fararstjórum liðsins og taldi hún að líklegast yrðu stelpurnar búnar að spila síðasta leikinn á fimmtudaginn.

Á föstudaginn munu stelpurnar njóta þess að þræða verslunargötur Gautaborgar áður en þær halda aftur til Íslands.

Heimild: Feykir.is