UMF Tindastóll - Frjálsíþróttadeild

Ísak Óli  Traustason, hlaut tvo Íslandsmeistaratiltla á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í Langstökki …
Ísak Óli Traustason, hlaut tvo Íslandsmeistaratiltla á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í Langstökki og 110 m grindarhlaupi. Mynd: Fésbókarsíða Ísaks Óla

Meistaramót Íslands 15-22ja ára var haldið við frábærar aðstæður í Hafnarfirði um helgina og endaði með miklu metaregni. Alls voru sett 5 aldursflokkamet, 39 mótsmet og 245 persónuleg met. Sveit UMSS var í eldlínunni og var Ísak Óli Traustason úr UMSS í essinu sínu og setti tvö mótsmet.

Á vef Frjálsíþróttasambands Íslands segir að vindur hafi verið löglegur og blíðuveður alla helgina og skilaði það því að keppendur þökkuðu fyrir sig með þvílíku metaregni að annað eins hefur varla sést. Ísak Óli Traustason endaði sitt keppnistímabil á tveimur bætingum á seinni keppnisdegi. Sú fyrri var í 110 grindarhlaupi (15,23 sek) og seinni í langstökki 6,92 metrar. “Þessar bætingar skiluðu mér Íslandsmeistaratitlum í þessum greinum og tveimur mótsmetum,” segir Ísak á Facebooksíðu sinni. Auk þessa góða titla bætti Ísak Óli sinn persónulega árangur í hástökk er hann sveif yfir 1,81m.

Fleiri keppendur frá UMSS gerðu gott mót í Hafnarfirðinum því:

Daníel Þórarinsson hljóp 200 metrana á 23,23 sekúndum sem er hans besti árangur á tímabilinu og sama var uppi á teningnum í 400 metra hlaupi. Þar var tíminn 51,36 cm.  

Gunnar Freyr Þórarinsson bætti sinn persónulega árangur þegar hann kastaði sleggju 42,58m í flokki pilta 16-17 ára og einnig í kringlukasti, 33,80 metrar.

Kristinn Freyr Briem Pálsson keppti í sama aldursflokki og bætti sinn persónulega árangur  í 200 metra hlaupi er hann hljóp brautina á 25,37 sekúndum.

Hrafnhildur Gunnarsdóttir bætti sinn persónulega árangur í tveimur greinum í flokki stúlkna 18-19 ára. Þar hljóp hún 200 metrana á 28,19 sekúndum og kastaði kringlu 31,22  metra.

Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir bætti sinn besta árangur á tímabilinu er hún spretti 100 metra grindarhlaup á 16,06 sekúndum í flokki stúlkna 20-22 ára stökk yfir 1,62m í hástökki.

Heimild: Feykir.is