Svavar Atli Birgisson körfuboltamaður úr Tindastóli var í kvöld útnefndur íþróttamaður Skagafjarðar árið 2005 í hófi í Ljósheimum. Svavar er einnig Íþróttamaður Tindastóls árið 2005. Á síðasta tímabili spilaði Svavar sitt besta tímabil með liði Tindastóls. Hann var einn albesti leikmaður landsins og stigahæstur allra Íslendinga í úrvalsdeildinni ásamt því að spila félaga sína uppi og berjast eins og ljón í vörninni. Sannarlega mikill fengur fyrir Tindastól að halda í Svavar þrátt fyrir að liðið leiki einni deild neðar í vetur en síðasta vetur.
Í öðru sæti varð Þórarinn Eymundsson hestamaður úr Stíganda.
Þórarinn átti mjög gott keppnisár. Hann keppti á fjölda móta og stóð sig undantekningalaust vel. Af helstu afrekum má telja 3 sigra á Fákaflugi, stigahæsti knapi á Opna Norðurlandsmótinu á Akureyri, 2. sæti í 100 m skeiði á Íslandsmótinu og jöfnun á gildandi íslandsmeti í 100 m skeiði. Í lok ársins var Þórarinn tilnefndur sem Gæðingaknapi ársins á landinu.
Þórarinn er einnig Hestaíþróttamaður Skagafjarðar árið 2005.
Í þriðja sæti varð Kári Steinn Karlsson frjálsíþróttamaður úr Tindastóli. Kári Steinn er án nokkurs vafa einn alefnilegasti frjálsíþróttamaður landsins. Á árinu var hann besti langhlaupari landsins og vann fjóra íslandsmeistaratitla og keppti í landsliðinu. Með landsliðinu keppti hann á Smáþjóðaleikunum og í Evrópubikarkeppni. Á Norðurlandamóti unglinga í víðavangshlaupi lenti hann í 3. sæti. Kári setti einnig glæsileg íslandsmet í 10000 m hlaupi í flokkum 19-22 ára.
Aðrir sem tilnefndir voru:
Bjarki Már Árnason, Ungmennafélaginu Tindastóli, knattspyrna
Einar Helgi Guðlaugsson, Ungmennafélaginu Tindastóli, sund
Katrín Sveina Björnsdóttir, Golfklúbbi Sauðárkróks, golf
Mette Mannseth, Hestamannafélaginu Léttfeta, hestaíþróttir
Oddný Ragna Pálmadóttir, Ungmennafélaginu Hjalta, frjálsar íþróttir
Sunna Dís Bjarnadóttir, Ungmennafélaginu Neista, frjálsar íþróttir
Sævar Birgisson, Ungmennafélaginu Tindastóli, skíði