Sunna Gestsdóttir frjálsíþróttakona úr Tindastóli var í dag útnefnd íþróttamaður Skagafjarðar árið 2003. Á árinu stóð Sunna sig einstaklega vel, setti íslandsmet í langstökki utanhúss 6,30 m, íslandsmet í langstökki innanhúss 6,28 m og íslandsmet í 200 m hlaupi innanhúss 24,30 sek. Hún bætti sig einning í þrístökki bæði utan- og innanhúss, 60 m hlaupi og 400 m hlaupi. Þá varð hún áttfaldur íslandsmeistari á árinu.
Í öðru sæti í kjörinu varð Margrét Guðný Vigfúsdóttir knattspyrnukona úr Tindastóli. Margrét var á árinu valin í landslið (U17) og spilaði með því á Ólympíuleikum æskunnar í París í sumar og var í byrjunarliðinu í öllum leikjunum þar. Hún var líka valin í undirbúningshóp fyrir U19 ára landsliðið í sumar. Spilaði flest alla leiki með meistaraflokki Tindastóls í sumar og var hún kosinn besti leikmaðurinn á lokahófi Knattspyrnudeildar Tindastóls.
Í þriðja sæti í kjörinu varð Sveinn Margeirsson frjálsíþróttamaður úr Tindastóli. Sveinn stóð sig gríðarlega vel á árinu og var ásamt Sunnu einn af albestu frjálsíþróttamönnum landsins. Hann var bestur langhlaupara í vegalengdum 3000 m hindrun, 5000 m hlaup og 10000 m hlaup og setti auk þess íslandsmet í 3000 m hindrun á tímanum 8:46.20 mín.
Aðrir íþróttamenn sem hlutu viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu:
Björn Jónsson, Hestamannafélaginu Stíganda
Guðjón Kárason, Ungmennafélaginu Hjalta
Jóhann Bjarkason, Golfklúbbi Sauðárkróks
Jóhann Ingi Haraldsson, Bílaklúbbi Skagafjarðar
Magnús Bragi Magnússon, Hestamannafélaginu Léttfeta
Sigurbjörn Þorleifsson, Hestamannafélaginu Svaða
Sævar Birgisson, Ungmennafélaginu Tindastóli