Stórhuga Ölfusingar - Unglingalandsmót 2008

Formanni UMSS var boðið að sitja samráðsfund UMFÍ í Þorlákshöfn helgina 26. til 27. apríl sl. en um einkar fróðlegan fund var að ræða fyrir þá sem taka þátt í æskulýðs og íþróttamálum.
Erindi fluttu þeir Sigurður Guðmundsson, íþróttafulltrúi Mosfellsbæjar og Reynir Ragnarsson, formaður ÍBR.
Sigurður fjallaði um hvernig Mosfellsbær, sem er liðlega 8 þúsund íbúa sveitarfélag  færi að því að styrkja íþróttastarf umf.  Aftureldingar og annarra klúbba í sveitarfélaginu.   Hann kynnti heildarsamning sem sveitarfélagið gerði við félagið sem fól í sér að gerðar voru kröfu á ýmsum sviðum til starfs Aftureldingar s.s. til uppeldisstefnu, menntunar þjálfara og skipulags íþróttastarfs. 
Reynir Ragnarsson, foramaður ÍBR greindi frá nokkuð flóknu kerfi Reykjavíkurborgar til að koma styrkjum til 66 aðildarfélaga ÍBR.  Í krafti stærðar sinnar hefur ÍBR tekið að sér ýmis verkefni s.s. Reykjavíkurmaraþon í samstarfi  við fyrirtæki  sem nýtast íþróttastarfi í landinu.
Á fundinum spunnust frjóar umræður um hvernig mætti tvinna saman betur það góða starf sem fer fram annars vegar fram í félagsmiðstöðvum og hins vegar í íþróttafélögum en þær hugleiðingar gætu einmitt átt vel við hér í Skagafirði.
Fulltrúar sveitarfélagsins Ölfuss með sveitarstjórann Ólaf Áka Ragnarsson, kynntu þá uppbyggingu sem fram fer í sveitarfélaginu  í tengslum við Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður um næstu verslunarmannahelgi.  Fyrir státaði sveitarfélagið af afbragðs golfvelli og ágætum mannvirkjum af ýmsu tagi en  nú stendur yfir stórátak í uppbyggingu íþróttamannvirkja sem mun án nokkurs efa vekja mikla athygli og draga að sér fólk sem vill njóta þess sem best gerist.
Það er tilhlökkunarefni að halda á Unglingalandsmótið í Þorlákshöfn  og fylgjast með keppni og leik í frábærri aðstöðu Ölfusinga.