Starf sjálfboðaliða er grunnur að sjálfbærni og þróun íþróttahreyfingarinnar til framtíðar. Niðurstaða sameiginlegs vinnuhóps ÍSÍ og UMFÍ sýnir að skýrt verklag og viðurkenning á framlagi sjálfboðaliða eykur ánægju og hvetur fólk til að gefa af sér.
Íþróttahreyfingin þarf að skapa umhverfi þar sem sjálfboðaliðar upplifa að þeirra framlag skipti máli. Með réttum stuðningi verða þeir burðarás í núverandi starfi íþróttahreyfingarinnar og fyrirmyndir fyrir næstu kynslóðir. Af þeim sökum er mikilvægt að ÍSÍ og UMFÍ leggi grunn að framtíðarsýn fyrir allt sjálfboðastarf innan íþróttahreyfingarinnar.
Þetta er niðurstaða vinnuhóps sem samanstendur af fulltrúum frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ). Vinnuhópurinn var skipaður eftir 76. Íþróttaþing ÍSÍ árið 2023. Markmið hópsins var að skoða stöðu og starfsumhverfi sjálfboðaliða innan íþróttahreyfingarinnar með því að efla fræðslu um verkefni sjálfboðaliða, móta verkferla sem auðvelda þeim að sinna störfum sínum og hvetja íþróttahreyfinguna til að skapa jákvætt og aðlaðandi vinnuumhverfi fyrir fólk sem vill gefa af sér sem sjálfboðaliðar. Hópurinn sendi könnun til sjálfboðaliða, íþróttafélaga, íþróttahéraða og sérsambanda. Yfir 300 svör bárust af öllu landinu. Niðurstöðurnar veita mikilvæga innsýn í áskoranir og tækifæri í starfi og umhverfi sjálfboðaliða.
Mikil hefð er fyrir störfum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni. Vísbendingar eru þó um að breytingar séu að verða, erfiðara sé að fá fólk til sjálfboðastarfa, sérstaklega til stjórnar- og ábyrgðarstarfa. Mikilvægt er að snúa þeirri þróun við og gera starf sjálfboðaliða eftirsóknarverðara því án þeirra er erfiðara að viðhalda öflugu íþrótta- og æskulýðsstarfi á Íslandi.
Vinnuhópurinn leggur eftirfarandi til:
• Gerð handbókar og rafræns skráningarkerfis fyrir sjálfboðaliða.
• Fræðsla og skýrari verkferlar sem auðvelda störf sjálfboðaliða.
• Aðgengi að upplýsingum og stuðningi í gegnum sérhæfða vefsíðu.
• Meiri viðurkenning og umbun fyrir sjálfboðaliða.
• Samræmdri tryggingavernd komið á sérstaklega fyrir sjálfboðaliða.
• Aðgerðaráætlun til að fjölga sjálfboðaliðum og styðja betur við þá.
Í vinnuhópnum voru Hildur Karen Aðalsteinsdóttir (formaður), Garðar Svansson, Úlfur Hróbjartsson, Haraldur Ingólfsson og Þóra Guðrún Gunnarsdóttir. Frá stjórn UMFÍ voru Rakel Másdóttir, Málfríður Sigurhansdóttir og starfsmenn vinnuhópsins Linda Laufdal (ÍSÍ) og Auður Inga Þorsteinsdóttir (UMFÍ).
Niðurstöður vinnuhópsins voru kynntar á formannafundi ÍSÍ 22. nóvember 2024.
Skýrslu vinnuhópsins, tillögur og drög að aðgerðaráætlun má lesa hér:
Skýrsla vinnuhópsins um sjálfboðaliða má finna hér.
(Frétt frá ÍSÍ)