Landslið Íslands í knattspyrnu á EM 2016
Á vef Skagfirðingafélagsins er sagt frá því að Skagfirðingar eigi sína fulltrúa í leikmannahópnum á EM í Frakklandi. Fyrsti leikur íslenska liðsins fer fram í kvöld og því ekki úr vegi að fara yfir hverjir þessir Skagfirðingar eru.
Rúnar Már Sigurjónsson, sem leikur með Sundsvall í Svíþjóð er alinn upp hjá Tindastóli, sonur Sigga Magga og Sigurlaugar Konráðs. Í vörninni er Kári Árnason, hálfur Hofsósingur, en hann er sonur Fanneyjar Friðbjörnsdóttur hjúkrunarfræðings sem fædd er og uppalinn á Hofsósi. Loks skal nefna hinn unga og efnilega Hjört Hermannsson, sem rekur ættir sínar að Ysta-Mói í Fljótum, afabarn Björns Hermannssonar tollstjóra.
Rúnar Már leikur með Sundsvall í Svíþjóð en var alinn upp í Tindastóli. Vonandi fær hann tækifæri hjá Lars og Heimi til að spila í Frakklandi en hann stóð sig vel á undirbúningstímabilinu fyrir EM. Hjörtur Hermannsson sem er yngstur leikmannanna í liðinu er fæddur 1995. Hann er sonur Hermanns Björnssonar forstjóra Sjóvár en faðir Hermanns var Björn Hermannsson frá Ysta-Mói í Fljótum. Hjörtur leikur með PSV Eindhoven í Holland og þykir afar efnilegur og fékk hann tækifæri í æfingaleiknum gegn Noregi.
Á vef Skagfirðingafélagsins er þess einnig getið að móðurafi Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafur Gíslason, hafi alist upp a bænum Undhóli í Óslandshlíð. Var hann m.a. í Bændaskólanum á Hólum og mikil afreksmaður í íþróttum. Loks er þess getið að það hafi verið skagfirskur flugmaður, Ingvar Ormarsson, sonur Ormars Jónssonar og Lovísu Símonardóttur, sem flaug með landsliðið á EM í sérmerktri Boeing-þotu Icelandair.