Landsmót 50+

Keppt verður í fjölmörgum greinum á Landsmóti UMFÍ 50 + á Hvammstanga í sumar. Til að koma á móts við sem flesta og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Keppnisgreinar mótsins eru blak, bridds, boccia, badminton, frjálsar íþróttir, fjallaskokk, hestaíþróttir, golf, pútt, línudans, skák, sund, þríþraut, starfsíþróttir, (búfjárdómar, dráttavélaakstur, jurtagreining, pönnukökubakstur og kökuskreytingar).

Á laugardeginum verður keppt í fjallaskokki og er öllum heimil þátttaka í þeirri grein óháð aldri. Þá verða að sjálfsögðu allir velkomnir á kvöldvökurnar á föstudags- og laugardagskvöldinu. Fólk getur því ráðið hvort það fer bara sjálft, með vinum, makanum eða börnum og barnabörnum. Fyrir þá sem hafa einnig hug á að gera eitthvað annað en að fylgjast með keppni er hægt er að fara í selasiglingu, heimsækja Selasetrið, skoða Verslunarminjasafn Bardúsu, fá sér kaffisopa í Hlöðunni, skella sér í sund, snæða á Fjöruborðinu á Vatnsnesi sem haldið verður sömu helgi og áfram mætti lengi telja. Það verður því nóg um að vera og allir ættu að finna sér eitthvað til dundurs og gamans.

Tekið skal sérstaklega fram að öllum einstaklingum 50 ára og eldri er heimil þátttaka og því er ekki nauðsynlegt að vera í ungmennafélagi til að öðlast þátttökurétt. Að lokum eru allir hvattir til að taka fram íþróttaskóna og skunda af stað á Hvammstanga. Sjáumst þar hress og kát og leyfum hinum sanna ungmennafélagsanda að svífa yfir vötnum.