Búið er að opna fyrir skráningu í Boðhlaup BYKO. Hlaupið fer fram fimmtudaginn 30. júní og markar upphaf að mótasumri UMFÍ. Boðhlaupið fer fram við Fífuna í Kópavogsdal. Búast má við gríðarlegri gleði og fjöri enda þar lögð áhersla á gleði, liðsvinnu og hlaupaánægju.
Boðhlaupið fer þannig fram að hver liðsmaður hleypur 4 km hring, þ.e. allir í liðinu hlaup 4 km hvor fyrir sig en aðeins einn í einu. Þátttakendur hlaupa með boðhlaupskefli sem þarf að afhenda næsta hlaupara áður en hann leggur af stað sína 4 km. Hlaupaleiðin er falleg og þægileg á fótinn sem ætti að henta öllum þeim sem hafa áhuga á að taka þátt.
Rás- og endamark í boðhlaupinu eru staðsett við Fífuna og er staðsetning þeirra á sama stað sem myndar skemmtilegt andrúmsloft með tónlist og gleði þar sem hægt er að hvetja liðið sitt áfram og njóta samverustundar með samstarfsfélögum og vinum.
Þetta er viðburður fyrir fyrirtæki, samtök og vini sem vilja gera sér glaðan dag saman. Svæði Boðhlaups BYKO opnar klukkan 18 og verður ræst út í fyrsta hlaupið klukkan 20:00.
Nú er um að gera og fylgjast með Boðhlaupi BYKO á Facebook.
Skráning í Boðhlaup BYKO
Boðhlaup BYKO er hluti af Íþróttaveislu UMFÍ og 100 ára afmæli Ungmennasambands Kjalarnesþings.
Aðrir viðburðir í Íþróttaveislunni eru:
Drulluhlaup Krónunnar – 13. ágúst
Hundahlaup – 25. ágúst
Forsetahlaup á Álftanesi – 3. september