Íþróttamaður Skagafjarðar 2010

Á hátíðarsamkomu UMSS sem haldin var í Húsi Frítímans þann 28. desember síðastliðinn var Gauti Ásbjörnsson kjörinn Íþróttamaður Skagafjarðar fyrir árið 2010.

Gauti Ásbjörnsson fæddist á Sauðárkróki árið 1985.  Hann hefur frá barnæsku keppt fyrir UMF Tindastól í frjálsíþróttum, knattspyrnu, körfuknattleik, sundi og júdó.

Gauti hefur unnið 33 Íslandsmeistaratitla í frjálsíþróttum í öllum aldursflokkum, í stangarstökki, hástökki og þrístökki.
Hann hefur á ferli sínum sett 18 Íslandsmet í stangarstökki í hinum ýmsu aldursflokkum frjálsíþrótta.
Frá árinu 2005 hefur hann búið og æft í Gautaborg, þar sem hann hefur nú nýlokið námi í vélaverkfræði.
Hjá sínu sænska frjálsíþróttafélagi, ÖRGRYTE, hefur Gauti alla tíð notið leiðsagnar þjálfarans Juha Pekka Dalhöjd, en þeir hafa haldið sambandi síðan þeir kynntust heima á Sauðárkróki, þegar finnski þjálfarinn kom og hélt stangarstökksnámskeið á vegum Frjálsíþróttadeildar Tindastóls árið 1997.
 
ÁRANGUR GAUTA ÁSBJÖRNSSONAR 2010:
Á keppnistímabilinu innanhúss í upphafi árs bætti Gauti árangur sinn úr 4,42m (frá 2009) í 4,60m á 3 mótum (4,52m, 4,53m og 4,60m).  Með þessum árangri er Gauti í 1.-3. sæti á “Afrekaskrá FRÍ innanhúss 2009-2010”.
Í júníbyrjun stórbætti Gauti sinn fyrri árangur utanhúss, (4,50m frá 1997), þegar hann stökk 4,65m á móti í Gautaborg.
Gauti var valinn í landslið Íslands sem keppti í “Evrópubikar-3.deild” á Möltu.  Þar hafnaði Gauti í 4. sæti í 15 þjóða keppni, stökk 4,50m.  Íslenska landsliðið hafnaði einnig í 4. sæti.
Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fór fram á Laugardalsvelli 10.-11. júlí.
Hann kom heim til Íslands til að keppa á mótinu, náði sínum besta árangri og Gauti varð Íslandsmeistari í stangarstökki, stökk 4,72m, stökk 20cm hærra en næsti keppandi. Þá hafði Gauti bætt sinn fyrri árangur um 22cm í sumar.
Árangurinn í sumar skipar Gauta í 1. sæti á “Afrekaskrá FRÍ utanhúss 2010”.Þessi árangur er einnig besti árangur Íslendings í stangarstökki í 6 ár, eða síðan Jón Arnar Magnússon stökk 4,90m á “Landsmóti UMFÍ 2004” hér heima á Sauðárkróki. Árangurinn skipar jafnframt Gauta í 5. sæti á skrá yfir bestu stangarstökkvara Íslendinga frá upphafi.
 
Aðrir sem tilnefndir voru til Íþróttamanns Skagafjarðar voru:
Sölvi Sigurðsson - Hestamannafélagið Svaði
Mette Mannseth - Hestamannafélagið Léttfeti
Þórarinn Eymundsson - Hestamannafélagið Stígandi
Þröstur Ásgrímsson - Bílaklúbbur Skagafjarðar
Baldur Haraldsson - Bílaklúbbur Skagafjarðar
Sólborg Björg Hermundsdóttir - Golfklúbbur Sauðárkróks
Helgi Rafn Viggósson - Tindastóll - körfubolti
Hjalti Árnason - Tindastóll - sund
Meistaraflokkur karla í knattspyrnu - Tindastóll