Verkefnið Hjólað í vinnuna 2021 hefst á morgun miðvikudaginn 5. maí og stendur til 25. maí. Skráning er í fullum gangi.
Með því að taka þátt í þessu verkefni ertu ekki bara að bæta skemmtilegri hreyfingu við þína daglegu rútínu, heldur lækkar þú kolefnissporin í leiðinni og sparar þá peninga sem færu annars í eldsneyti. Það er semsagt ENGIN ástæða til að taka ekki þátt! Ef þú hefur ekki þegar skráð þig til leiks getur þú gert það núna á heimasíðu Hjólað í vinnuna.
Skráningarferlið er afar einfalt:
1. Farið er inná vef Hjólað í vinnuna, www.hjoladivinnuna.is
2. Smellt er á Innskráning efst í hægra horninu
3. Stofnaðu þinn eigin aðgang með því að skrá þig inn með Facebook eða búðu þér til notendanafn og lykilorð
4. Velja má á milli þess að stofna vinnustað (þarf að gera ef vinnustaðurinn finnst ekki í fellilista) eða stofna/ganga í lið (þá er búið að stofna vinnustaðinn)
5. Skráningu lokið
Hægt er að nálgast ítarlegar skráningarleiðbeiningar inná vef Hjólað í vinnuna og einnig er þar að finna leiðbeiningar á ensku í skjali neðst á síðunni. Ef upp koma vandamál við skráningu er hægt að hafa samband við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í síma 514-4000 eða senda tölvupóst á netfangið hjoladivinnuna@isi.is.
Um verkefnið:
Verkefnið Hjólað í vinnuna fer fram 5.-25. maí nk. og skráning eru í fullum gangi. Hjólað í vinnuna er fyrir marga vorboðinn ljúfi. Þrátt fyrir að enn ríki töluvert sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu þá er aldrei mikilvægara en núa að huga vel að heilsunni og sinni daglegu hreyfingu. Fyrirtæki og stofnanir um allt land geta nú farið að huga að því að skrá vinnustaðinn til leiks og hvetja þannig allt starfsfólk til að vera með þrátt fyrir að fólk vinni jafnvel heiman frá sér. Mikilvægt er fyrir vinnustaði landsins að huga að starfsandanum á þessum fordæmalausu tímum og er verkefnið Hjólað í vinnuna góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman, en auðvitað á sama tíma að virða 2 metra fjarlægðarmörkin. Sami háttur verður hafður á og í fyrra að fyrir þá sem vinna heima að er úrtfærslan einföld. Fólk gengur, hjólar eða ferðast með öðrum virkum hætti þá vegalengd er samsvarar vegalengd til og frá vinnu og skráir þá kílómetra inn í kerfið. Hægt er að byrja eða enda vinnudaginn á því að ganga eða hjóla til og frá vinnu.
Markmið verkefnisins er að huga að daglegri hreyfingu ásamt því að vekja athygli á virkum ferðamáta og eru hjólreiðar bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti. Hjólreiðar eru frábær útivist, hreyfing og líkamsrækt. Munum bara að halda góðri fjarlægð á milli annarra hjólreiðarmanna/-kvenna.
UMSS hvetur Skagfirðinga til að hreyfa sig daglega og ekki síst taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem Hjólað í vinnuna er.