Hittumst á Unglingalandsmóti UMFÍ um verslunarmannahelgina

Hittumst á Unglingalandsmóti UMFÍ um verslunarmannahelgin

Kæri ungmennafélagi,

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina.

Mótið hefur verið haldið frá árinu 1992 og er nú glæsileg fjölskyldu- og íþróttahátíð þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 19 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. 

Unglingalandsmót UMFÍ fer fram í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðinn og Sveitarfélagið Árborg. 

Skráning og greiðsla

Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ hófst 1. júlí og verður lokað fyrir skráningar á miðnætti 25. júlí. 

Þátttakendur greiða eitt þátttökugjald, 7.900 kr. óháð því hvað þeir taka þátt í mörgum keppnisgreinum. Keppendur frá UMSS greiða 3.002 kr. ef þeir passa upp á að velja Ungmennasamband Skagafjarðar sem keppnisfélag. Gjaldið þarf að greiða rafrænt við skráningu á mótið. Aðeins er greitt fyrir þátttakendur 11 – 19 ára. Frítt er fyrir systkini og foreldra. 

Við hvetjum þátttakendur til þess að skrá sig tímanlega.

Fjöldatakmarkanir eru í nokkrum keppnisgreinum og því gildir reglan, fyrstur kemur, fyrstur fær.

Skráning í liðakeppni                       

Liðakeppni er í nokkrum greinum (fótbolti, körfubolti, strandhandbolti, strandblak). Við skráningu í liðakeppni þarf hver og einn að ganga frá sinni skráningu og taka fram nafn á liði í þar til gerðan reit. Ekki er hægt að ganga frá skráningu fyrir heilt lið.

Keppnisgreinar

Á mótinu geta þátttakendur valið úr fjölmörgum ólíkum keppnisgreinum. Greinarnar eru: biathlon, bogfimi, borðtennis, fimleikalíf, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, hestaíþróttir, íþróttir fatlaðra, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, pílukast, rafíþróttir, skák, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund, taekwondo og upplestur. 

Afþreying

Eins og ævinlega er fjölbreytt dagskrá og afþreying fyrir alla mótsgesti yfir allt mótið. Börn yngri en 10 ára fá líka fjölmörg verkefni eins og foreldrarnir. Það verður líf og fjör á Selfossi frá morgni til kvölds alla mótsdagana. 

Hér eru nokkur sýnishorn af því sem boðið verður uppá:

Listamenn

Á meðal þeirra sem fram koma á tónleikum öll kvöldin eru GDRN, Herra Hnetusmjör, Bríet, Frikki Dór, Moskvít, Sprite Zero Klan, Stuðlabandið, Koppafeiti og fleiri.

Tjaldsvæði

Þátttakendum mótsins og fjölskyldum þeirra stendur til boða ókeypis tjaldsvæði á Selfossi sem er einungis fyrir gesti mótsins. Svæðinu er skipt niður í ákveðin hólf og merkt mismunandi íþróttahéruðum eftir landshlutum.

Á tjaldsvæðinu er boðið upp á aðgengi að rafmagni. Aðgangur að rafmagni kostar kr. 4.000 kr. fyrir helgina og er gengið frá greiðslu við komuna á tjaldsvæðið.

Þú getur fundið upplýsingar um mótið á Facebook-síðu Unglingalandsmóts UMFÍ

Allt um málið, upplýsingar og skráning á www.ulm.is