Landsmót hestamanna verður haldið að Hólum í Hjaltadal dagana 27. júní – 3. júlí. Undirbúningurinn er í fullum gangi og gengur vel að sögn Áskells Heiðars Ásgeirssonar, framkvæmdarstjóra Landsmótsins, þó að enn séu ýmsir lausir endar sem þurfi að hnýta en ekkert stórvægilegt hefur komið upp á.
„Þetta er ósköp eðlilegt í þessum bransa en ég var einmitt að fá í hendurnar tjöld sem notuð voru á Secret Solstice hátíðinni í borginni um síðustu helgi,“ sagði Áskell Heiðar í samtali við Feyki. Þá segir hann ennfremur að þessi bransi sé ekki það stór og því algengt að það sé margt sem hægt sé að samnýta, til að mynda hluti á borð við hljóðkerfi, stúkur og tjöld sem séu í notkun allar helgar í sumar hvort sem er.
Hestamannafélagið Skagfirðingur mætir sterkt til leiks á Landsmótið, í fyrsta sinn undir merkjum hins nýstofnaða félags og ætla sér stóra hluti. Formaðurinn, Skapti Steinbjörnsson kveðst afar bjartsýnn fyrir hönd skagfirskra knapa „við erum með góða hesta og eins hörku knapa,“ sagði Skapti þegar Feykir sló á þráðinn til hans í gær.
Fráfarandi formaður Hrossaræktarsambands Skagfirðinga, Ólafur Sigurgeirsson, segir að spenna sé fyrir viðburðinum meðal hrossaræktenda og segir þetta nokkurskonar uppskeruhátíð.
Ólafur segir að Búið er að leggja mikið í svæðið á Hólum og því sé mati Ólafs mjög mikilvægt að mótið heppnist vel og að það verði til þess að allir Skagfirðingar sem og Norðlendingar í heild, líti á þetta sem sitt svæði. Þá vonar Ólafur að þetta leiði af sér meiri samstöðu og meiri einhug meðal hestamanna „enda mun ekki af veita.“