Hættu að hanga!

Ungmennafélag Íslands
Ungmennafélag Íslands

,,Hættu að hanga! Komdu að hjóla, synda og ganga“ fer fram dagana 5. júní til 16. september 2010. Verkefnið stendur því yfir í 103 daga en í ár eru liðin 103 ár frá stofnun UMFÍ. Öllum er heimil þátttaka, óháð aldri og hægt er að velja milli þátttöku í einstaklingskeppni og hópa /fyrirtækjakeppni eða vera með í báðum keppnunum. Þátttakendur skrá niður sína hreyfingu inn á ganga.is eða safna stimplum í göngubók. Göngubókina er hægt er að nálgast á flestum N1 bensínstöðvum landsins og í flestum sundlaugum landsins. Þátttakendur geta nálgast stimpil fyrir sína hreyfingu í afgreiðslu sundlauga landsins.

Einstaklingskeppni

Til að taka þátt í einstaklingskeppninni geta þátttakendur skráð sig til leiks hér eða fengið göngubók á næstu N1 bensínstöð eða í sundlaugum landsins. Þátttakendur geta nálgast stimpil fyrir sína hreyfingu í afgreiðslu sundlauga landsins. Sú hreyfing sem hægt er að skrá eða fá stimpil fyrir er að ganga eða skokka 3 kílómetra, ganga á fjöll, hjóla 5 kílómetra eða synda 500 metra. Sérstök viðurkenning verður veitt þeim sem hreyfa sig í 30, 60 eða 80 skipti. Fyrir að hreyfa sig í 30 skipti fá þátttakendur bronsmerki, silfurmerki fyrir 60 skipti og gullmerki fyrir 80 skipti. Einnig fá heppnir þátttakendur gjafabréf frá Zo-on eftir 30,60 og 80 skipti.

Fyrirtækjakeppni  

Fyrirtækjakeppnin fer fram á sama tíma og einstaklingskeppnin. Öll fyrirtæki og/eða hópar geta tekið þátt í verkefninu. Fyrirtækið/hópurinn skráir sig til leiks inn á vefnum ganga.is. Fyrirtækið/hópurinn þarf að setja hópinn sinn í réttan flokk eftir fjölda meðlima í hópnum. Fyrirtækið/hópurinn skráir niður þegar einhver úr hópnum gengur eða skokkar 3 kílómetra, gengur á fjöll, hjólar 5 kílómetra eða syndir 500 metra. Þeir þrír hópar sem hreyfa sig mest og í flesta daga fá svo verðlaun.

Einnig keppa fyrirtæki í því hvaða þátttakendur hvers fyrirtækis hafa gengið á flest fjöll. Hægt er að skrá fjallgönguna ýmist þegar hópurinn fer saman eða þegar einstaklingar úr hópnum fara einir eða í öðrum hópi í ferðir á fjall. Sambandsaðilar hafa stungið uppá fjöllum sem verða sérstaklega auglýst til að ganga á en vitaskuld er leyfilegt að skrá inn önnur fjöll til keppni en þau sem tilgreind hafa verið sérstaklega. Fyrirtækin/hóparnir geta síðan skráð stutta lýsingu á ferðinni og sett myndir inn á ganga.is síðuna. Þau fyrirtæki / hópar sem fara flestar ferðir upp á fjöll fá verðlaun.