Göngum í skólann og Ólympíuhlaup ÍSÍ 2024

Göngum í skólann og Ólympíuhlaup ÍSÍ 2024 verða sett á Norðurlandi 4. og 5. september.

Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. Með þessu er ætlunin að hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna en hreyfing vinnur m.a. gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Þar að auki er markmiðið að draga úr umferð við skóla og stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. 

Í ár tekur Ísland þátt í 18. skipti í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka farið stöðugt vaxandi. Hér á landi fer skráning grunnskóla mjög vel af stað og auðvelt er fyrir skóla að bætast í hópinn. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 2. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer Göngum í skólann verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 2. október. 

Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.   

Vefsíða verkefnisins og skráning er á  www.gongumiskolann.is.  

Ólympíuhlaup ÍSÍ 

Ólympíuhlaup ÍSÍ áður Norræna skólahlaupið hefur verið fastur liður í skólastarfi margra grunnskóla allt frá 1984 þegar það fór fyrst fram.  

Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og líðan. Nemendur hafa hingað til getað valið á milli þriggja vegalengda þ.e. 2,5 km, 5 og 10 km, en nú geta skólarnir ákveðið þessar vegalengdir sjálfir allt eftir því hvað umhverfi skólanna býður upp á. Að hlaupinu loknu fær hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá fjölda þeirra sem hlupu ásamt heildarvegalengd sem hlaupin var. Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt.  
Nánari upplýsingar um verkefnið og srkáning, er að finna á https://isi.is/fraedsla/olympiuhlaup-isi/ 

Þrír skólar í hvoru verkefni eru dregnir út og fær hver þeirra 150.000 króna inneign í Altis sem selur vörur til að nota á skólalóðinni eða í íþróttasalnum.

Upplýsingar um verkefnin gefur Linda Laufdal verkefnastjóri, Fræðslu- og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ með tölvupósti linda@isi.is eða í s: 8430645.