Miðvikudaginn 6. september nk. verður hreyfiverkefnið Göngum í skólann sett af stað í sautjánda sinn. Um er að ræða verkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og samtarfsaðilum, sem hvetur börn, og nemendur almennt, til þess að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.
Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.
Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttakan vaxið stöðugt.Vegna birtu og veðurskilyrða fer Göngum í skólann fram á Íslandi í september en er erlendis í október. Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 4. október en verkefninu lýkur hérlendis á þeim degi.
Á heimasíðunni Göngum í skólann má finna nánari upplýsingar, fréttir og fróðleik varðandi verkefnið sem og myndir frá fyrri verkefnum. Hér er svo hægt að skrá skólann sinn til leiks.
ÍSÍ hvetur alla skóla til að skrá sig og alla nemendur, sem geta, til að taka þátt í verkefninu.