Frjálsíþróttaskóli

Frjálsíþróttaskólinn var haldinn í fimmta skipti á Sauðárkróki núna í júní og tókst vel til. Elmar Eysteinsson framkvæmdarstjóri UMSS sá um undirbúning fyrir skólann en Gunnar Sigurðsson og Árni Geir Sigurbjörnsson sáu um þjálfun. Elmar og Árni sáu síðan um að vera með krökkunum utan æfinga og skiptust á því að gista með þeim. Frjálsíþróttaæfingar voru tvisvar á dag, ein um morguninn og ein um kvöld. Æft var með frjálsíþróttadeild Tindastóls á kvöldæfingum. Við fengum að gista í Árskóla eins og undanfarin ár. Hádegis og kvöldmatur var borðaður á Kaffi Krók en við fengum hollan og góðan mat þar og krakkarnir voru ánægðir með hann. Sveitafélagið bauð öllum þátttakendum frjálsíþróttaskólans frítt í sund í þessari viku. Á mánudeginum fórum við í báta með siglingarklúbbnum Drangey. Ingvar Páll leyfði okkur að koma og próf allskonar báta. Krakkarnir fengu að prófa árabát, kanó og kajak. Á þriðjudeginum fórum við í Hús Frítímans og krakkarnir fengu að spreyta sig í klifurveggnum. Á fimmtudeginum var haldið frjálsíþróttamót og keppt í stangarstökki, langstökki, kúluvarpi, spjótkasti, kringlukasti, hástökki og 1000 metra hlaupi. Það komu nokkrir keppendur annarstaðar að eins og Varmahlíð og nokkrir frá Akureyri. Keppendur stóðu sig vel á mótinu þó kalt hafi verið í veðri, við endum síðan á því að fara á pizzuhlaðborð á Kaffi Krók. Frjálsíþróttaskólanum lauk um hádegi á föstudeginum.

Ég held að þátttakendur okkar hafi haft bæði gagn og gaman af frjálsíþróttaskólanum og vona að við sjáum sem flesta aftur á næsta ári.

Að lokum viljum þakka Kaupfélagi Skagfirðinga fyrir afslátt á matvöru, Árskóla fyrir að leyfa okkur að gista, Ingvari Pál og Siglingarklúbbnum fyrir að leyfa okkur að koma í báta og Sveitafélaginu fyrir að leyfa okkur að koma frítt í sund.