Drangeyjarsundið - Vaxandi áhugi á hetjusundinu

Heiða Björk Jóhannsdóttir
Heiða Björk Jóhannsdóttir

Formaður UMSS hefur setið í starfshópi Sundsambands Íslands sem fjallað hefur um breytingar á reglum ÍSÍ um Drangeyjarsundið.  Fyrirhugaðar breytingar miða að því að tryggja öryggi sundmanna og bæta umgjörð um Drangeyjarsundið. Gildandi reglur ÍSÍ um Drangeyjarsundið eru komnar til ára sinna, en þær byggja á gömlum hefðum um sundið.

Fulltrúar sveitarfélagsins Skagafjarðar hafa tekið vel í þá hugmynd að festa nöfn þeirra sem þreyta sundið á bjarg í fjörunni á Reykjaströnd. Gera má ráð fyrir því að almennur áhugi á sjósundi, bæði sem keppnisgrein og trimmi fyrir almenning, verði til þess að fjölga þeim sem reyna fyrir sér með sund frá Drangey.  Drangeyjarsund vekur jafnan jákvæða athygli fjölmiðla enda er um gríðarlega þrekraun að ræða.  Vaxandi athygli mun án efa auka umfjöllun fjölmiðla um Skagafjörð og getur þess vegna nýst í almennri kynningu á sveitarfélaginu. 

Skagfirðingurinn Heiða Björk Jóhannsdóttir er fyrsta konan sem synti Drangeyjarsund en í kjölfar hennar komu Þórdís Hrönn Pálsdóttir og Skagfirðingurinn Sara Jane Emily Card.  Heiða Björk hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir íþróttaafrek sitt af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.