Í samskiptum ÍSÍ við landlækni, sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur komið fram að vegna mikill anna við að koma af stað starfi í leik- og grunnskólum landsins, í samræmi við þær reglur um nú gilda, hefur ekki náðst að ljúka undirbúningi fyrir þátttöku leik- og grunnskólabarna í íþróttastarfi. Því má gera ráð fyrir því að röskun verði á íþróttastarfi næstu daga þangað til íþróttafélög, skólasamfélagið og sveitarfélög hafa komið sér niður á lausnir til að halda úti starfi með þeim takmörkunum sem munu gilda næstu fjórar vikurnar. Í samskiptum við ofangreinda aðila hefur komið fram að til að unnt sé að undirbúa þetta verkefni og útfæra þær takmarkanir sem nú eru í gildi með fullnægjandi hætti væri heppilegt að gera ekki ráð fyrir því að íþróttastarf fyrir þennan aldurshóp fari af stað fyrr en mánudaginn 23. mars nk. ÍSÍ mælist til að farið verði eftir þessum tilmælum.
Varðandi íþróttaiðkun fullorðinna, þá er litið svo á að hún sé heimil að uppfylltum skilyrðum sem koma fram í auglýsingu heilbrigðisráðherra um samkomubann, þ.e. að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar inn í sama rými, hvort sem um er að ræða innan- eða utandyra. Þá skal sjá til þess, eftir því sem unnt er, að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga, gera ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa búnað eða æfingasvæði daglega og tryggja aðgengi að hreinlætisaðstöðu til handþvotta og sótthreinsunar. Ljóst er að þessi skilyrði munu útiloka æfingar fjölmargra íþróttagreina. Íþróttafélögin, hvert fyrir sig, þurfa að koma því á framfæri við sína iðkendur og félagsmenn hvað af íþróttastarfsemi þeirra þau telja að geti farið fram að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram hafa komið. Rétt er að ítreka að það á ekki að gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem yfirvöld hafa sett fram til að sporna við útbreiðslu þessarar veiru.
Við lifum nú fordæmalausa tíma og það er mikilvægt að allir taki höndum saman um að gera þá eins bærilega og kostur er. Sóttvarnalæknir, landlæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa unnið mjög gott starf við að bregðast við þeirri vá sem að okkur sækir. Með samstöðu og því að allir fylki sér að baki þeirra reglna sem þessi embætti hafa gefið út má því ætla að við eigum að geta komist í gegnum þennan tíma á eins farsælan hátt og mögulegt er.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er í stöðugu sambandi við yfirvöld og mun deila út til íþróttahreyfingarinnar upplýsingum um leið og þær berast.
Foreldrar eru beðnir um að fylgjast reglulega með nýjustu upplýsingum um þau svæði sem skilgreind eru sem hættusvæði. Ef börn eða fjölskyldur þeirra ferðast um þau svæði, þurfa þau að fara í sóttkví skv. leiðbeiningum Landlæknis.
Foreldrum barna með skert ónæmiskerfi eða undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt af heilbrigðisyfirvöldum að ráðfæra sig við viðkomandi sérfræðing eða heimilislækni.
Einstaklingar sem finna fyrir einkennum og/eða hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti t.d. vegna ferðalaga eru hvattir til að hringja í síma 1700 og fá leiðbeiningar. Þeir sem verið hafa í nánu samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví og hið sama á við um þá sem ferðast hafa á undanförnum dögum til skilgreindra hættusvæða.
UMSS og aðildarfélög fylgjast vel með þróun mála og fara eftir þeim fyrirmælum sem berast frá yfirvöldum hverju sinni.