Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn, annað árið í röð. Mynd: GG.
Síðast liðinn laugardag var ekin lokaumferðin í Íslandsmótinu í rallý. Eknar voru fjórar sérleiðir um Skjaldbreiðarveg og Kaldadal. Spennan var mikil því ljóst var að í lok dags myndu úrslit um Íslandsmeistaratitla ráðast í þremur flokkum, jeppa-, non-turbo- og heildarkeppninni en í þeim flokki teljast allir þeir bílar sem keppa, óháð afli og útbúnaði.
Mikið hafði rignt dagana fyrir keppni og eins var á keppnisdaginn, auk þess sem all hvasst var. Aðstæður voru því erfiðar, vegir bæði mjúkir og ósléttir en keppendur létu það ekki á sig fá enda dýrmæt stig í boði. Barist var af öllu afli en andstætt síðustu umferð var einungis ein áhöfn sem ekki lauk keppni.
Þeir félagar Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson mættu vel undirbúnir til leiks. Var ljóst út frá stigagjöf að þeim myndi nægja sjötta sætið í lok dag til að hampa titlunum. Örlaði á léttum taugatitringi í þeirra liðsbúðum eftir hrakfarir síðustu umferðar á Skjaldbreiðarvegi en þessir þaulreyndu ökumenn drógu djúpt andann, óku af skynsemi í bland við góðan hraða og tryggðu sér þannig annað sætið. Sýndu þeir enn og aftur að ekki skal leggja eingöngu áherslu á hraðan akstur heldur þarf skynsemi og útsjónasemi að vera með í för. Með þetta í farteskinu tryggðu þeir sér Íslandsmeistaratitilinn, annað árið í röð!
Í jeppaflokki urðu Þorkell Símonarson og Anna María Sighvatsdóttir stigahæðst og því meistarar. Þess má geta að þetta er fyrsta keppnissumar Önnu Maríu og verður spennandi að fylgjast með henni á komandi keppnistímabilum.
Í flokki non-turbo sigruðu þau Baldur Arnar Hlöðversson og Hanna Rún Ragnarsdóttir eftir harða baráttu við hjónin Ólaf Þór Ólafsson og Tinnu Rós Vilhjálmsdóttur. Draumur Óla og Tinnu varð að engu eftir að dekk sprakk á þriðju sérleið. Þau Baldur og Hanna Rún létu meistaratitil ekki nægja heldur óku þau einnig til góðs, en fyrir keppni söfnuðu þau áheitum fyrir hvern ekinn kílómeter. Var það til styrktar Bleiku Slaufunni og hafa nú þegar safnast 100 þús. Hægt er að styrkja söfnunina til 21. október á reikninginn 0324-26-042709, kennitala 221294-2709.
Úrslit umferðarinnar fóru þannig að Daníel og Ásta Sigurðarbörn unnu með yfirburðar mun. Þau óku nú í fyrsta skipti á nýjum Subaru bíl sínum en í öðru sæti urðu Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson. Í því þriðja lentu Henning Ólafsson og Árni Gunnlaugsson en þeir hafa lent í miklum hrakföllum í sumar.