87. Ársþing UMSS var haldið í grunnskólanum að Hólum þann 23. feb. síðastliðinn.
Ársþingið sóttu rúmlega 30 þingfulltrúar af 61 sem höfðu kjörgengi. Þingið var málefnalegt og gagnlegt. Nýjir í stjórn til 2 ára eru Páll Friðriksson frá Hestamannafélaginu Léttfeta og Sigmundur Jóhannesson UMF. Neista. Arnar Halldórsson og Margrét Stefánsdóttir eru á sínu seinna ári.
Guðmundur Þór Guðmundsson var kjörinn formaður til eins árs. Stjórn hefur ekki skipt með sér verkum.
Góðir gestir sátu þingið, þeir Björn formaður og Sæmundur framkvæmdastjóri UMFí og Viðar Sigurjónsson frá skrifstofu ÍSÍ á Akureyri. Þeir Björn og Viðar fluttu ávörp og í lokin kynnti Björn landsmót UMFÍ sem fer fram í Kópavogi í byrjun Júlí.
Yfir þinginu var góður andi og fóru nefndarstörf friðsamlega fram. Fjöldi ályktana var gerður og verður gert grein fyrir þeim síðar. Helst ber þó að nefna að þingið samþykkti að sækja um Unglingalandsmót 2010 en þá verður UMSS 100 ára.
Fulltrúi frjálsíþróttaráðs varpaði fram hugmynd um að sameina frjálsíþróttafólk í héraðinu undir einum hatti og samnýta krafta þjálfara og góða aðstöðu. Bað hann viðstadda að íhuga málið vel og undirbjó þarmeð jarðveginn fyrir næsta skref.
Eins og við var að búast var gott að sækja Hjaltdælinga heim og voru veitingar í fundarhlé framúrskarandi. Næsta þing verður í boði U.M.F.Tindastóls að ári.