Aðalfundur UMF Tindastóls var haldinn miðvikudagskvöldið 7. mars í Húsi frítímans á Sauðárkróki þar sem m.a. var kynntur nýr styrktarsamningur við Sparisjóð Skagafjarðar. Áfram starfar óbreytt stjórn þar sem hún gaf kost á áframhaldandi setu.
Á fundinum var veittur starfsbikar Tindastóls sem kemur í hlut einstaklings úr hópi sjálfboðaliða og að þessu sinni varð Brynjar Rafn Birgisson þess aðnjótandi fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins.
Fjögur ungmenni fengu 50 þús. króna styrki úr Minningarsjóði Rúnars Inga Björnssonar en það voru þau Björn Anton Guðmundsson, Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir, Pétur Rúnar Birgisson og Birna María Sigurðardóttir.
Sparisjóður Skagafjarðar hefur verið aðalstyrktaraðili Tindastóls sl. þrjú ár en nú verður gert enn betur því skrifað var undir nýjan samning til fjögurra ára. Sparisjóðurinn mun því styrkja félagið um 2,5 milljónir á ári, 10 milljónir alls.
Stjórn Tindastóls ákvað að bjóða krafta sína áfram við stjórnvöl aðalstjórnar félagsins og var það samþykkt með dynjandi lófataki. Stjórnin er því skipuð sem fyrr:
■ Gunnar Þór Gestsson, formaður
■ Magnús Helgason, varaformaður
■ Inga Huld Þórðardóttir, ritari
■ Bertína Guðrún Rodriguez, gjaldkeri
■ Jón Daníel Jónsson, meðstjórnandi
Varamenn í stjórn:
■ Kristjana Jónsdóttir
■ Guðjón Örn Jóhannsson
■ Marteinn Jónsson