Íþróttaárið 2004 var Skagfirðingum býsna gott eins og allir vita. Staða okkar fólks sýnir það líka í góðum afrekum á árinu.
Björn Jónsson er þar í fremstu röð enda valinn íþróttamaður ársins í Skagafirði. Björn var einnig kjörinn besti hestaíþróttamaður landsins á nýliðnu ári sem er sannarlega glæsilegur árangur.
Birna Valgarðsdóttir leikmaður Keflavíkur í körfubolta er einnig Skagfirðingur og hefur getið sér glæsilegt orðspor í sinni íþrótt. Árið 2004 var toppurinn á hennar ferli og hún valin besta körfuknattleikskona landsins, íþróttamaður Keflavíkur og íþróttamaður Reykjanesbæjar.
Einar Hólmgeirsson handboltamaður er hreinræktaður Skagfirðingur. Hann hefur verið að standa sig gríðarlega vel í vetur í Þýskalandi og leikur þar í einni erfiðustu deild í heimi. Hann er einnig í íslenska landsliðinu sem keppir í Heimsmeistaramótinu í Túnis eftir nokkra daga.
Jón Arnar Magnússon sem bjó í Skagafirði í a.m.k. í sex ár gerði það líka gott á árinu og var valinn besti frjálsíþróttakarl Íslands og íþróttamaður Kópavogsbæjar.