12. Unglingalandsmót UMFÍ

12. Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Mikill áhugi er fyrir mótinu og ljóst að um metþátttöku verður að ræða. Alls eru um 1500 keppendur skráðir til leiks í hinum ýmsu greinum, en keppt er í frjálsíþróttum, knattspyrnu, körfuknattleik, sundi, golfi, glímu, hestaíþróttum, skák og motocrossi.

 
Í frjálsíþróttakeppninni eru þátttakendur 630 og hafa þeir aldrei verið fleiri á ULM, er þetta langfjölmennasta frjálsíþróttamót ársins hér á landi.  Næst flestir hafa keppendur í frjálsum á ULM verið 605, en það var árið 2004, þegar mótið var líka haldið á Sauðárkróki.
 
Lokaundirbúningur stendur nú yfir, enn vantar fleiri hendur til verka og er skorað á þá sem tök hafa á, að gefa sig fram við skrifstofu UMSS að Víðigrund 5, eða í síma 453-5460.
 
Risatjald hefur verið reist á Flæðunum norðan sundlaugar, en þar munu ýmsir atburðir skemmtidagskrárinnar fara fram. Þar eru einnig risin nokkur smærri tjöld, þar sem m.a. mun verða veitingasala.
Nú er unnið að því að skerpa á merkingum fyrir frjálsíþróttir á íþróttavellinum, en það verk hefur tafist nokkuð vegna skúragangs.
 
Aðstæður á Sauðárkróki til hátíðahalda af þessu tagi eru sennilega þær bestu á landinu. Mikil nálægð er milli allra keppnisstaða, tjaldsvæðið í stuttu göngufæri og öll nauðsynleg þjónusta innan seilingar. Það er því ekki óeðlilegt að reikna með að 10-12 þúsund gestir muni heimsækja Sauðárkrók um verslunarmannahelgina.