Göngum í skólann 2022

Göngum í skólann 2022 verður sett hátíðlega miðvikudaginn 7. september í Melaskóla í Reykjavík. Þetta er í sextánda sinn sem verkefnið er sett hér á landi.

Tekur þinn skóli ekki örugglega þátt í ár?

Flutt verða stutt ávörp og Lalli Töframaður verður með skemmtiatriði. Að því loknu verður verkefnið ræst með viðeigandi hætti þar sem nemendur, starfsfólk og gestir munu ganga stuttan hring í nærumhverfi skólans.

Fjöldi skóla sem tekur þátt hefur fjölgað jafnt og þétt með árunum en fyrst þegar verkefnið fór af stað árið 2007 tóku 26 skólar þátt og í fyrra voru alls 79 skólar skráðir til þátttöku.

Það verður gaman að sjá hvort ekki fleiri skólar taka þátt í ár!

Það er einfalt að skrá skóla til þátttöku en það eina sem þú þarft að gera er að smella hér og fylla inn nokkrar upplýsingar um skólann.

Allir geta tekið þátt í verkefninu og oftar en ekki þarf bara svolítið ímyndunarafl þar sem skipulag sumra skólahverfa getur gert gönguferðir erfiðar og sumir nemendur þurfa að fara langa leið til að komast í skólann. Ef nemendur eiga erfitt með að komast gangandi til skóla geta þeir samt tekið þátt í verkefninu á einn eða annan hátt. T.d. með því að fara í gönguferð saman áður en kennsla hefst að morgni eða með því að nota hádegi eða löngu frímínútur til þess.

Tilvalið er að nota gönguferðina t.d til að:

Kynnast nágrönnunum: Kannanir hafa sýnt að fólk sem býr við rólegar götur kynnist nágrönnum sínum betur en fólk sem býr við ys og þys.

Læra að bera virðingu fyrir götunum sinni: Reglulegar gönguferðir í skólann auka tilfinningu barna fyrir umhverfi sínu og fyrir vikið er líklegra að þau gangi betur um það og geri þannig göturnar betri fyrir alla! Reynslan sýnir að þegar margir eru á ferli um götuna þá hugsar fólk betur um garðinn sinn.

Finna betri gönguleiðir: Gengurðu sömu leið og ekin er með bílnum? Hvernig væri að kanna umhverfið til að kanna hvort til séu fleiri skemmtilegar leiðir í skólann, forðast umferðargöturnar og fara um hliðargötur og göngustíga í staðinn?

Kynnast nágrenninu; Mikilvægur þáttur í þroskaferli barna er að þau læri að rata vel í sínu nánasta umhverfi. Það eykur öryggi og er mikilvægt þegar börnin verða síðar ein á ferð.

Æfa lífsleikni; Notum gönguferðirnar í skólann til að æfa að fara yfir götu, rata í hverfisbúðina eða setja bréf í póstkassann.