Unglingalandsmót UMFÍ 2009

Að sögn lögreglunnar á Sauðárkróki voru gestir á Unglingalandsmóti til fyrirmyndar og ekki kom til eins einasta útkalls sökum landsmótsins. -Það voru um 12 þúsund gestir í bænum og það var ekki svo komið sem nudd milli bíla, engin útköll og allir skemmtu sér með bros á vör alla helgina, segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn.

Allt lið lögreglunnar á Sauðárkróki var á vakt um helgina og segir Stefán að bíll hafi verið á þjóðvegaeftirliti alla helgina og mikið hafi verið um hraðakstur, sá sem hraðast fór mældist á 144 kílómetra hraða. -Ég vil bara koma á framfæri þakklæti til allra þessara frábæru gesta sem hér voru um helgina. Það er ekki oft sem svona stór samkoma er haldin án allra óhappa, segir Stefán

Verslunareigendur á Sauðárkróki brosa líka hringin eftir helgina, þreytulega þó. Í bakaríinu stóð öll stórfjölskylda bakarans og starfsfólks hans vaktina og höfðu vart undan að baka góðgæti ofan í svanga mótsgesti. Í Skagfirðingabúð og ´Hlíðakaup var mikill erill og mátti líkja þessum dögum við röð af Þorláksmessum.

frétt frá www.feykir.is