Unglingalandsmót á Ísafirði - 19/5/2003

Samkvæmt nýútkominni áfangaskýrslu unglingalandsmóts UMFÍ gengur undirbúningur vel. Mótið sem haldið verður á Ísafirði næstkomandi verslunarmannahelgi, 1.-3. ágúst er í fyrsta skipti opið unglingum upp að 18 ára aldri. Allir unglingar á aldrinum 11-18 ára mega taka þátt og eru aldursflokkarnir 11-12 ára, 13-14 ára, 15-16 ára og 17-18 ára.
Keppt verður í 8 íþróttagreinum. Þær eru:
Knattspyrna (7 í liði), körfuknattleikur, handknattleikur (yngsti flokkur), frjálsar íþróttir, sund, golf, skák og glíma. 
Þeir sem ekki hafa áhuga á keppni í íþróttum geta tekið þátt í hæfileikakeppni (tónlist, dans, leiklist og rapp). Upplagt er fyrir bæði hópa og einstaklinga að skrá sig í þær greinar. Auk þessa er fjölbreytt dagskrá við allra hæfi alla mótsdagana.
Hægt er að skrá sig á vef unglingalandsmótsins ulm.is.