Göngum um Ísland - 19/5/2003

Í júní mun verkefnið Göngum um Ísland, hefjast að nýju, en Ungmennafélag Íslands með stuðningi Heilbrigðisráðuneytisins, stóð fyrir verkefninu síðast liðið sumar við góðar undirtektir. Verkefnið miðar að því að fá landsmenn til að fara í gönguferðir og njóta þeirrar náttúrufegurðar og kyrrðar sem Ísland hefur upp á að bjóða og um leið byggja upp betra líkamsform. Göngum um Ísland verkefnið er ætlað að höfða til allra landsmanna en ekki síst til fjölskyldufólks.
Í Skagafirði er mikið af áhugaverðum gönguleiðum, bæði léttar og aðrar sem eru meira krefjandi. Í verkefninu Göngum um Ísland er Mælifellshnjúkurinn einn af þeim stöðum þar sem komið hefur verið upp póstkassa með gestabók í.
Mælifellshnjúkurinn er nokkuð auðveldur uppgöngu ef farið er eftir stikaðri gönguleið úr Mælifellsdal. Þaðan er um 1 1/2 til 2 tíma gangur á toppinn sem er í 1138 m hæð yfir sjávarmáli.